Í hverri viku fáum við að kynnast fagurkera. Þetta er Áslaug Friðriksdóttir, hún er borgarfulltrúi í borgarstjórn Reykjavíkur og hefur setið í menningarráði borgarinnar í fleiri ár.
Hvernig er tónlistasmekkurinn þinn?
Hann er frekar kaótískur, ég get eiginlega hlustað á allt nema panflautur.
Lagið sem kemur þér alltaf í gott skap?
„Þúsund sinnum segðu já“ með Grafík hefur verið svo lengi á playlistanum að það ætti eiginlega skilið að vera nefnt hér. Annars er „Stolen dance“ með Milky chance mest spilaða lagið upp á síðkastið.
Síðasta bók sem þú fórst í gegnum?
Ég fór í gegnum „Bókina um vefinn“ sem vinur minn Sigurjón Ólafsson var að gefa út, en við deilum því áhugamáli að vilja allt fyrir vefi gera.
Kvikmyndin sem þú getur horft á aftur & aftur?
„Zoolander“ – best í heimi.
Quote sem fær þig til að hugsa?
„Just do it“ er Zen quote sem minnir mann á að láta hugsanir ekki þvælast of mikið fyrir sér – Við Nike sjáum að sjálfsögðu snilldina í því.
Síðasta mynd sem þú sást í bíó?
Ég hef nokkur undanfarin ár verið haldin þeim skringilega kvilla að sofna í bíó, bara um leið og myndin byrjar sofna ég, því hefur bíóferðunum fækkað. En síðasta bíómynd sem ég sá er „Still Alice“ og vá, fokk, shit (eða þannig).
Síðasti menningarviðburður sem þó fórst á?
Síðasta vetrardag var Gröndalshúsið flutt og sett niður til endanlegrar staðsetningar í Grjótaþorpinu. Leiðir mínar og hússins hafa legið saman í menningunni í Reykjavík og mér þótti þetta stór og merkileg stund þar sem ég fylgdist með gjörningnum.
Uppáhalds staðurinn þinn sem þú ferð á til að njóta kvöldsins?
Bókastofan heima, hún er best.
Borgin mín er?
Auðvitað er Reykjavík borgin mín, hún er algjörlega málið. Annars finnst mér ég alltaf vera smá vera komin heim þegar ég er í London, mamma bjó þar um tíma og ég var í framhaldsnámi þar og þar má vel láta dagana líða.
Síðasta sem þú appaðir í símann þinn?
Síðasta appið sem ég notaði var sjónvarpsfjarstýringar app því sjónvarpsfjarstýringin týndist. Um daginn reyndi ég að leita að teninga-appi, sem hægt væri að nota í staðinn fyrir raunheims-teningin sem var týndur úr spilinu, en fann ekkert. Viðskiptahugmynd fyrir einhvern vonandi?
Besta stundin mín er?
Frá því ég man eftir mér hef ég elskað sund – og besta stundin er að fara í sund á morgnanna, næstbest að komast í hádeginu.
Þegar ég horfi á fallega hönnun?
Þá finnst mér að hægt sé að breyta heiminum.
Fallegasta bygging á Íslandi?
Faktorshúsið, Krambúðin og Tjöruhúsið í Neðsta kaupstaðnum á Ísafirði eru fallegastar.