Le Bistro er franskur veitingastaður staðsettur á laugavegi 12. Ég hef kynnst mörgum veitingastöðunum um ævina og finnst alveg einstaklega gaman þegar ég finn stað sem býður upp á bæði góðan mat og frábæra upplifun. Le Bistro er rekin af hinum íslensk-franska Arnór Bohic & vini hans Alex sem er franskur í báða enda. Arnór og Alex hafa náð að gera stemninguna, matinn & þjónustuna 100% að mínu mati. Ég varð ástfanginn um leið & ég steig þarna inn í fyrsta skipti & fagnaði að bistro menningin væri nú komin til Íslands, enda þekktur fyrir að elska París dóttur mína og einnig borgina sem hún er skírð eftir.
Maturinn er ótrúlega góður & einn af mínum uppáhalds réttum er lambaskanki með trufflu-kartöflumús og rósmarínsoði ásamt góðu glasi af rauðvíni. Einnig á ég það til að detta inn af götunni með góðum vin og fá mér ofnbakaðan camembert með hunangi & hnetum ásamt fullt af brauði & rauðvínsglasi, þessi réttur er æðislegur til að deila & njóta augnabliksins & iðandi mannlífsins fyrir utan gluggann.
Ég hef gert það að hefð að fara á Le Bistro annan hvern sunnudag uppúr hádegi & í dag vita vinir & vandamenn að þeir geta hitt á mig þar & bæst í hópinn. Einn sunnudaginn ætlaði ég að droppa inn í osta & rauðvínsglas í stutta stund. Uppúr 14:00 mætti þar heldri maður vel til hafður með axlaböndin sín & bindi. Hlutverk hans var að taka upp harmonikkuna sína og spila í nokkra klukkutíma, dreptu mig hvað andrúmsloftið varð skemmtilegt & heillandi. Ég endaði á að sitja í nokkra klukkutíma & njóta lífsins & staðarins. Mæli með að þið kæru vinir prófið nýjar víddir á þessum uppáhalds veitingastað mínum, allt á matseðlinum er unaður fyrir bragðlaukana.